Lögmenn sinna ýmiss konar lögfræðilegri ráðgjöf. Í starfinu felst meðal annars að annast meðferð mála fyrir hönd skjólstæðinga svo sem innheimtu-, skilnaðar-, eða skaðabótamála, skipti dánarbúa, stjórn þrotabúa eða sáttaumleitanir. Héraðsdóms- og hæstaréttarlögmenn hafa einkarétt til að annast málflutning fyrir dómstólum og er lögmaður því lögverndað starfsheiti.

Lögmenn starfa bæði á opinberum vettvangi og hjá einkafyrirtækjum, í ráðuneytum og stofnunum, hjá fjármálafyrirtækjum og tryggingafélögum eða sem stjórnendur fyrirtækja svo nokkur dæmi séu tekin.

Helstu verkefni

Dæmi um verkefni lögmanna:

- veita upplýsingar um réttarstöðu, réttindi og skyldur
- annast samningagerð
- veita ráðgjöf um stofnun fyrirtækja
- annast frágang á skjölum, svo sem erfðaskrám, afsölum og skuldabréfum
- annast skuldaskil og aðstoða einstaklinga og fyrirtæki við úrlausn fjármála
- sinna réttargæslu
- annast varnir fyrir hönd sakborninga í refsimálum

Hæfnikröfur

Til að starfa sem lögmaður þarf að ljúka meistaragráðu í lögfræði og sækja viðbótarréttindi til að flytja mál fyrir dómstólum auk þess sem ýmis önnur skilyrði eru fyrir útgáfu lögmannsréttinda. Æskilegir eiginleikar í starfinu eru heiðarleiki, nákvæmni í vinnubrögðum, þolinmæði og skipulagshæfileikar auk þess sem gott er að eiga auðvelt með mannleg samskipti.

Lögmannafélag Íslands

Námið

Grunnnám í lögfræði er þriggja ára háskólanám til BA eða BS gráðu, í boði við Lagadeild Háskóla ÍslandsHáskólann í ReykjavíkHáskólann á Akureyri auk þess sem nám í viðskiptalögfræði er í boði við Háskólann á Bifröst.

Meistaranám til fullnaðarprófs í lögfræði er einnig í boði við alla skólana fjóra.

Ekki fyrir þig?

Skoðaðu aðra valmöguleika