Lyfjafræðingar vinna við allt sem snertir lyf og rétta notkun á þeim. Í lyfjaiðnaði tengist starfið framleiðslu lyfja ásamt gæðaeftirliti og skráningum. Á lyfjamarkaði vinna lyfjafræðingar við inn- og útflutning lyfja og markaðsmál en í apótekum felast störfin helst í ráðgjöf, eftirliti, stjórnun og afgreiðslu lyfja. Lyfjafræðingar eru löggilt heilbrigðisstétt.
Sem lyfjafræðingur gætirðu starfað í lyfjaiðnaði, við markaðsmál, á heilbrigðisstofnun, sjúkrahúsi, apóteki, heilsugæslu, eða á öðrum opinberum stofnunum sem tengjast geiranum. Einnig geta lyfjafræðingar starfað á rannsóknarstofu við ýmis konar mælingar, rannsóknir og gæðaeftirlit.
Helstu verkefni
- mæla, blanda og afgreiða lyf
- útskýra notkun og geymslu lyfja fyrir sjúklingum
- veita upplýsingar og ráðleggingar um lyf
- sjá um að lyf og skyld efni séu geymd við réttar aðstæður
- meta og gæðaprófa efni til lyfjagerðar
Hæfnikröfur
Lyfjafræðingar þurfa starfsleyfi frá landlækni og er krafist MS – prófs í lyfjafræði auk sex mánaða starfsþjálfunar. Viðbótarkröfur eru fyrir starfsleyfi á sérsviðum. Lyfjafræðingur þarf að geta borið ábyrgð á umsýslu lyfja og þeirri þjónustu sem veitt er auk þess sem mikilvægt er að þekkja lyfjalög sem og faglegar takmarkanir og þagnarskyldu þegar við á.
Lyfjafræðingafélag Íslands
Námið
Nám í lyfjafræði við Háskóla Íslands skiptist í tvennt; þriggja ára BS – nám og tveggja ára meistaranám í lyfjafræði sem veitir rétt til að sækja um starfsleyfi.
Að auki er möguleiki að fara í meistaranám í lyfjavísindum en í því er lögð áhersla á rannsóknir á ákveðnu sérsviði lyfjafræðinnar.
Tengd störf