Sjúkraflutningamenn meta áverka eftir slys, veita fyrstu hjálp og flytja sjúklinga á sjúkrastofnun ef með þarf. Í starfinu felast útköll í neyðartilvikum svo sem við bíl- eða flugslys, umhverfisslys eða veðurofsa. Sjúkraflutningamaður er löggilt starfsheiti.
Sjúkraflutningamenn starfa í sjúkrabílum, í sjúkraflutningaflugvélum eða á skipum með björgunarsveitarfólki. Oftast er unnið í samstarfi við annað heilbrigðisstarfsfólk auk lögreglu og/eða slökkviliðs.
Helstu verkefni
- veita fyrstu hjálp eða beita endurlífgun
- neyðargreining og meðferð á meðan á sjúkraflutningi stendur
- fylgjast með sjúklingi og skrá niður ástand hans
- meta alvarleika veikinda eða áverka og forgangsraða
- keyra sjúkrabíl á ákveðinn stað eftir leiðbeiningum neyðarlínu
- sótthreinsa og þrífa sjúkrabíl eftir meðferð sjúklinga
- gefa lyf í samráði við lækni
Hæfnikröfur
Sjúkraflutningamenn þurfa að geta unnið undir talsverðu álagi sem tengist því að koma að fólki í mjög erfiðum aðstæðum. Áhugi á læknis- eða hjúkrunarfræði er æskilegur ásamt áreiðanleika í starfi, hæfni til sinna fjölbreytilegum verkefnum og sýna samkennd.
Sjúkraflutningamenn og bráðatæknar fá starfsleyfi frá landlækni og þurfa að hafa lokið viðurkenndu námi í sjúkraflutningum. Í starfi sjúkraflutningamanns er mikilvægt að þekkja faglegar takmarkanir og virða þagnarskyldu þegar við á.
Í starfinu er notaður búnaður á borð við hjartalínurita, hjartastuðtæki, öndunargrímur og fleira sem nýtist við að aðstoða sjúklinga. Sjúkraflutningamaður þarf að vera í góðu líkamlegu formi, andlega og líkamlega auk þess sem farið er fram á aukin ökuréttindi (meirapróf).
Landssamband slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna
Námið
Grunnnám sjúkraflutningamanna er um 130 klukkustunda námskeið í umsjón Sjúkraflutningaskólans. Námið er hvort tveggja bóklegt og verklegt en meðal annars þarf að ljúka starfskynningu á neyðarbíl.
Að loknum 36 mánuðum í starfi sem almennur sjúkraflutningamaður fara flestir á um 320 klukkustunda námskeið í neyðarflutningum en einnig er hægt að sækja nám bráðatæknis til útlanda. Að auki sækja sjúkraflutningamenn ýmis sérhæfð námskeið svo sem um sjúkraflutninga í óbyggðum eða bráðaþjónustu við börn.
Tengd störf