Starfsmaður í upplýsingamiðstöð ferðamanna veitir upplýsingar um samgöngur, áhugaverða staði, gistingu og tengda þjónustu og starfsemi. Vinnan felst í að deila út kortum og bæklingum með upplýsingum fyrir ferðafólk og hjálpa til við bókanir á ferðum, gistingu og viðburðum. Verkefni geta verið mismunandi milli skrifstofa en algengast er að veita upplýsingar í þeim tilgangi að dvöl ferðamanna verði sem ánægjulegust.
Helstu verkefni
- svara fyrirspurnum ferðamanna á staðnum eða í síma/tölvupósti
- finna til upplýsingar á netinu, bæklinga, tímaáætlanir eða handbækur
- aðstoð við bókanir á gistingu, rútuferðum, viðburðum eða skipulögðum ferðum
- setja upp rekka með kortum og öðru upplýsingaefni og fylla á eftir þörfum
- selja handbækur, póstkort, gjafavöru og minjagripi
Hæfnikröfur
Starfsmaður í upplýsingaþjónustu þarf að búa yfir ríkri þjónustulund, eiga gott með að hlusta, setja sig í spor annara og veita aðstoð. Mikilvægt er að geta leitað eftir upplýsingum á tölvutæku formi og unnið undir nokkru álagi. Upplýsingagjöf fer yfirleitt fram á erlendum tungumálum þannig að auk enskukunnáttu er öll önnur tungumálaþekking gagnleg.
Þá er æskilegt að fylgjast með stöðu, breytingum og nýjungum innan ferðaþjónustunnar og geta myndað tengslanet við fólk innan hennar s.s. eigendur gistihúsa, hótel og ferðaskrifstofur.
Ferðamálastofa - upplýsingamiðstöðvar
Hæfnisetur ferðaþjónustunnar
Tengd störf