Stuðningsfulltrúar aðstoða nemendur náms- og félagslega með það að markmiði að auka færni þeirra og sjálfstæði. Oft er um að ræða nemendur sem þurfa sérstök úrræði vegna námserfiðleika, félagslegra aðstæðna, fötlunar eða þroskafrávika.

Stuðningsfulltrúar starfa í leik-, grunn- og framhaldsskólum. Í starfi sem stuðningsfulltrúi vinnurðu í nánu samstarfi við kennara eða sérkennara, eftir áætlun og leiðsögn þeirra.

Helstu verkefni

- aðstoða nemendur við að vera virkir í skólastarfi
- aðlaga verkefni að getu nemanda
- styrkja jákvæða hegðun nemenda
- leiðbeina um rétta líkamsbeitingu, notkun skriffæra og fleira
- aðstoða nemendur við athafnir daglegs lífs ef þörf er á
- styðja nemendur í félagslegum samskiptum
- fylgja og aðstoða nemendur í vettvangsferðum

Hæfnikröfur

Stuðningsfulltrúi þarf að hafa hæfni til að setja sig inn í aðstæður einstakra nemanda og vera fær um að sinna ólíkum þörfum þeirra. Mikilvægt er til dæmis að þekkja til þeirra bjarga sem standa fötluðum nemendum til boða, geta aðstoðað við kennslu í bóklegum og verklegum greinum og hjálpað nemendum með námserfiðleika.

Stuðningsfulltrúar gegna mikilvægu hlutverki sem fyrirmyndir og þurfa að geta lesið í aðstæður og brugðist við með viðeigandi hætti. Í starfi stuðningsfulltrúa er einum nemanda ýmist fylgt eftir eða farið á milli bekkja og fleirum sinnt.

Námið

Nám stuðningsfulltrúa er í boði í  Verkmenntaskóla Austurlands og á Félagsvirkni- og uppeldissviði Borgarholtsskóla. Meðalnámstími eru tvö til þrjú ár að meðtalinni tólf vikna starfsþjálfun.

Raunfærnimat og/eða stuðningsfulltrúabrú kunna einnig að vera í boði, ætlað þeim sem hafa starfsreynslu eða fyrra nám til að byggja á.

Ekki fyrir þig?

Skoðaðu aðra valmöguleika