Mannauðs- og starfsmannastjórar sjá um mönnun og ráðningar, þjálfun, fræðslu og starfsþróun, launa- og samningamál ásamt ýmsu sem snýr að velferð starfsfólks og samskiptum á vinnustað.

Færst hefur í vöxt að starfsheitið mannauðsstjóri komi í stað starfsmannastjóra en fólk með slíka menntun starfar einnig sem fræðslustjórar, kennarar, sjálfstætt starfandi ráðgjafar og ráðningarstjórar hvort tveggja hjá einkafyrirtækjum og hinu opinbera.

Helstu verkefni

- auglýsa lausar stöður og hafa umsjón með ráðningum
- eftirlit með vinnuskýrslum, fjarvistum og afleysingum
- ábyrgð á launaútreikningum og útborgun launa
- persónuleg ráðgjöf, til dæmis vegna samskiptavandamála á vinnustað
- umsjón með öryggismálum og ýmsum velferðarmálum starfsfólks
- skipulagning fræðslu, starfsþjálfunar og námskeiða

Hæfnikröfur

Mannauðs- og starfsmannastjórar þurfa að eiga gott með mannleg samskipti og geta verið hvort tveggja leiðandi og hvetjandi. Skipulags- og stjórnunarhæfileikar eru mikilvægir sem og að geta unnið sjálfstætt, gert áætlanir og metið árangur þeirra. Tölvu- og tungumálaþekking er æskileg, til dæmis á helstu launa- og ritvinnsluforritum.

Félag mannauðsfólks á Íslandi

Námið

Nám í mannauðsstjórnun er tveggja ára meistaranám að loknu BA/BS prófi. Slíkt framhaldsnám er kennt í Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands auk þess sem meistaranám í mannauðsstjórnun og vinnusálfræði er í boði við Háskólann í Reykjavík.

Ekki fyrir þig?

Skoðaðu aðra valmöguleika