Náttúru- og raunvísindabrautir framhaldsskóla bjóða upp á almennt en fjölbreytt bóknám með áherslu á stærðfræði ásamt viðfangsefnum og vinnubrögðum náttúruvísinda á borð við eðlisfræði, efnafræði, líffræði og jarðfræði. Slíkar brautir eru ekki síst hugsaðar til undirbúnings fyrir frekara nám í raunvísindum, tæknigreinum eða heilbrigðisvísindum. Náminu lýkur með stúdentsprófi.

Kröfur

Inntökuskilyrði á náttúruvísindabrautir geta verið nokkuð breytileg eftir skólum og best að kanna þau á heimasíðum skólanna. Nemendur þurfa þó að hafa lokið grunnskólaprófi með ákveðinni lágmarkseinkunn í kjarnagreinunum íslensku, ensku og stærðfræði.

Námsskipulag

Nám á náttúruvísindabrautum er að mestu bóklegt og skiptist alla jafna í kjarna- og valgreinar þar sem boðið er upp á sérhæfingu í greinum á borð við eðlisfræði, efnafræði, jarðfræði, líffræði, stærðfræði og tölvunarfræði. Valnámskeið er alltaf mikilvægt að skipuleggja með hliðsjón af aðgangsviðmiðum háskóla. Kennslu- og námsaðferðir geta verið fjölbreyttar en oft verkefnamiðaðar og byggjast á samstarfi og samtali nemenda á milli og við kennara.

Kennsla

Náttúrufræðibrautir eða skylt nám hefur verið í boði við flesta framhaldsskóla og best að kynna sér það nánar á heimasíðum hvers skóla fyrir sig.

Að loknu námi

Nám á náttúrufræðibraut getur verið góður undirbúningur fyrir áframhaldandi nám í greinum sem krefjast góðrar undirstöðuþekkingar í raunvísindum og stærðfræði. Sem dæmi má nefna verkfræði, tölvunarfræði, eðlisfræði, efnafræði, jarðfræði og líffræði auk heilbrigðis-, tækni- og viðskiptagreina.

Ekki þinn tebolli?

Skoðaðu aðra valmöguleika