Bílamálarar undirbúa, sprauta og mála bifreiðar auk þess að gera stundum við skemmda plasthluti í bílum. Í starfinu er bifreið undirbúin fyrir sprautun, flöturinn sem mála á er síðan sprautaður nokkrar umferðir með málningarefni og að lokum er þurrkað við réttan hita. Bílamálun er löggilt iðngrein.
Bílamálarar starfa oftast á bílasprautunar-, réttinga- eða bílaverkstæðum og vinna þar með handverkfæri á borð við slípirokka, sandblásturstæki og þrýstiloftssprautur.
Helstu verkefni
- hanna eða gera uppdrátt af teikningu eða merkingu á ökutæki
- meta kostnað og vinnuaðferðir
- undirbúa bíla með því að hreinsa burt fitu, ryð, lakk og önnur óhreinindi
- ryðverja með grunnmálningu og jafna yfirborð
- blanda liti eftir uppskrift og/eða finna rétta litablöndu
Hæfnikröfur
Í starfi bílamálara er mikilvægt að geta unnið sjálfstætt og skipulega eftir ákveðnu ferli svo ökutæki sé í samræmi við lög og reglugerðir eftir sprautun. Þú þarft einnig að þekkja vel hvernig litir blandast og hafa yfir að ráða tækni við að ná fram mismunandi áferð á lakk bíla. Þá er nauðsynlegt að kunna að umgangast efni sem notuð eru í bílamálun með tilliti til eiginleika þeirra, gæða og heilsufarslegra áhrifa.
Námið
Bílamálun er kennd við Borgarholtsskóla auk þess sem tveggja anna grunndeildir í málmsmíðum og véltækni má finna víða. Nám bílamálara tekur um þrjú ár.
Raunfærnimat hefur farið fram og/eða kann að vera í boði.
Tengd störf