Atvinnuflugmenn stjórna flugvélum sem flytja farþega, póst eða vörur innanlands og á milli landa. Í starfinu felst að bera ábyrgð á undirbúningi flugs, öryggi flugvélar, farþega, áhafnar og farms. Atvinnuflugmaður þarf að hafa fengið leyfi frá flugmálayfirvöldum til að stunda starf sitt og getur hvort tveggja haft réttindi til að starfa sem flugstjóri eða sem aðstoðarflugmaður í flutningaflugi þar sem tveggja flugmanna er krafist.

Helstu verkefni

- prófa virkni einstakra vélarhluta og stjórntækja
- lesa af mælum í stjórnklefa flugvélar
- samskipti við flugstjórnarmiðstöð á meðan flugi stendur
- vinna með flugskjöl um farmþyngd, tímaáætlun, flugleið og veðurskilyrði
- skrá upplýsingar um flugtíma, eldsneytisnotkun og ástand flugvélar

Hæfnikröfur

Til að geta hafið atvinnuflugmannsnám er nauðsynlegt að hafa einkaflugmannsskírteini og hafa lokið að lágmarki 27 framhaldsskólaeiningum í ensku, eðlisfræði og stærðfræði. Þó er mælt með að hafa lokið stúdentsprófi.

Atvinnuflugmaður þarf að geta lesið af landakortum og hafa góða þrívíddarsjón. Mikilvægt er að geta tekið við leiðbeiningum frá flugumferðarstjórn og jafnframt gefið skýr fyrirmæli og leiðbeiningar til flugáhafnar og farþega. Einnig þurfa atvinnuflugmenn að geta unnið undir talsverðu álagi og er nauðsynlegt að geta tekið mikilvægar ákvarðanir. Flugmaður þarf að hafa áhuga á tækni og tækninýjungum í greininni.

Félag íslenskra atvinnuflugmanna

Námið

Einkaflugmannsnám er um 150 klukkustunda bóklegt nám auk 45 fartíma í flugvél að lágmarki. Lágmarksaldur er 16 ár. Atvinnuflugmannsnám er tvær annir í skóla, bóklegt og verklegt auk 200 fartíma á flugvél.

Námið er í boði við  Flugskóla Reykjavíkur.

Ekki fyrir þig?

Skoðaðu aðra valmöguleika