Húsasmiðir vinna mjög fjölbreytt störf við nýjar byggingar og gamlar, innan húss og utan. Í starfinu felst að byggja hús og húshluta ásamt því að viðhalda og endurbyggja. Þar getur verið um að ræða verkstæðis- og innréttingavinnu, vinnu á byggingastað eða í tengslum við breytingar og viðgerðir. Oft er unnið eftir teikningum arkitekta, verkfræðinga eða hönnuða. Húsasmíði er lögvernduð iðngrein.
Sem húsasmiður gætirðu til dæmis unnið hjá byggingafyrirtæki, á trésmíðaverkstæði, við smíði brúa og virkjanna eða við sölu og ráðgjöf í byggingarvöruverslun.
Helstu verkefni
- slá upp steypumótum og smíða vinnupalla
- smíða og setja upp húseiningar
- smíða og setja upp innréttingar, hurðir, glugga og stiga
- klæða veggi, loft og gólf
- smíða þök og sjá um frágang þeirra
- klæða hús að utan og einangra
- setja upp girðingar, sólpalla og glerskála
- gera við og breyta gömlum húsum
- leiðbeina um val á efni og vinnuaðferðum
Hæfnikröfur
Húsasmiður þarf að hafa þekkingu til að velja vinnuaðferðir, efni og verkfæri sem við hæfi eru hverju sinni. Í því felst til dæmis að geta mælt út fyrir byggingu, afsett hæðir, teiknað upp deililausnir og metið þörf fyrir viðhald húsa og húshluta.
Í starfi húsasmiðs er einnig mikilvægt að þekkja til jarðvegsvinnu, uppsláttar steypumóta og meðferðar steinsteypu. Húsasmiður þarf að þekkja afleiðingar raka, myglu og fúa sem og grunnlögmál og reglur um hljóðvist, eldvarnir, varmaeinangrun og raka- og vindvarnir.
Húsasmiðir vinna mikið með höndunum en einnig er um að ræða sérhæfða vélavinnu til dæmis í tölvustýrðum trésmíðavélum. Notuð eru handverkfæri á borð við hamar, sög, tommustokk, hæðarkíki, hallamál, sporjárn og hefil og trésmíðavélar líkt og vélsög, borvél, fræsara og vélhefil.
Meistarafélag húsasmiða
Námið
Nám í húsasmíði hefur verið kennt við: Fjölbrautaskólann í Breiðholti, Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra, Fjölbrautaskóla Suðurlands, Fjölbrautaskóla Suðurnesja, Fjölbrautaskóla Vesturlands, Framhaldsskólann í Vestmannaeyjum, Menntaskólann á Ísafirði, Tækniskólann, Verkmenntaskólann á Akureyri og Verkmenntaskóla Austurlands. Meðalnámstími er fjögur ár, fimm annir í skóla auk starfsþjálfunar.
Raunfærnimat hefur farið fram og/eða kann að vera í boði auk náms fyrir fullorðna nemendur með reynslu af störfum í byggingariðnaði, í samstarfi framhaldsskóla á landsbyggðinni.
Tengd störf