Náms- og starfsráðgjafar aðstoða við að þróa og móta náms- og starfsferil fólks sem til þeirra leitar. Starfið tengist þannig öllum skólastigum, sí- og endurmenntun og vinnumarkaði þar sem veitt er ráðgjöf við náms- og starfsval og fræðsla um nám, störf og atvinnulíf.
Náms- og starfsráðgjafi er löggilt starfsheiti.
Náms- og starfsráðgjafar starfa við ráðgjöf í skólum, fræðslustörf í fyrirtækjum og símenntun, atvinnuleit og endurhæfingu á vinnumarkaði. Verkefnin geta verið nokkuð ólík eftir því hvort um er að ræða ráðgjöf í skólakerfi eða atvinnulífinu.
Helstu verkefni
- fræðsla um nám og störf
- leiðbeina um vinnubrögð í námi
- persónuleg ráðgjöf og stuðningur
- ráðgjöf, hagsmunagæsla og upplýsingamiðlun
- vinna við áhugagreiningu og áhugasvið
- mat og greining á náms- og starfsfærni
- miðlun upplýsinga um möguleika og framboð á námi og störfum
Hæfnikröfur
Náms- og starfsráðgjafar sækja starfsleyfi til menntamálaráðuneytis og er slíkt leyfi veitt þeim sem lokið hafa viðurkenndu háskólanámi í náms- og starfsráðgjöf. Í starfinu er nauðsynlegt að þekkja vel til íslensks skólakerfis og atvinnulífs, lagaumhverfis í náms- og starfsráðgjöf auk þess sem mikilvægt er að virða faglegar takmarkanir og þagnarskyldu þegar við á.
Félag náms- og starfsráðgjafa
Námið
Náms- og starfsráðgjöf er tveggja ára háskólanám á meistarastigi að loknu þriggja ára grunnnámi.
Tengd störf