Tamningamenn meta skapgerð hesta og ákveða hvernig best er að haga tamningu þeirra og þjálfun. Í starfinu felst að vinna traust hesta, undirbúa þá undir hlutverk sitt sem reiðhestar og þjálfa þá í svörun helstu ábendinga.

Tamningamaður getur unnið sjálfstætt eða við fyrirtæki á sviði hestamennsku svo sem við hrossarækt eða á tamningastöð.

Helstu verkefni

Felast í að venja hest við að:
- láta ná sér
- bera beisli og hnakk
- hleypa manni á og af baki
- standa bundinn og vera járnaður
- vera riðið á feti, brokki og stökki
- svara helstu ábendingum af jörðu og á baki

Hæfnikröfur

Tamningamenn þurfa að hafa mikinn áhuga á hestum, skapgerð þeirra, heilbrigði og vellíðan. Þekking á sögu íslenska hestsins og sérstöðu hans er æskileg ásamt innsæi og næmni á skapgerð og líðan hesta. Þolinmæði, ákveðni og sjálfstæð vinnubrögð eru mikilvægir eiginleikar í starfi tamningamanns sem þarf auk þess að vera í góðu líkamlegu formi.

Námið

Við hestafræðideild Háskólans á Hólum er boðið upp á tveggja ára nám í tamningum til diplómagráðu. Standast þarf inntökupróf í reiðmennsku.

Þar er einnig í boði nám í hestafræði til BS - gráðu sem og við Landbúnaðarháskóla Íslands.

Ekki fyrir þig?

Skoðaðu aðra valmöguleika