Gull- og silfursmiðir starfa á verkstæðum og/eða í verslunum við hönnun, þróun og smíði skartgripa. Einnig er unnið með eðalsteina, listmuni og nytjahluti úr gulli og silfri og hugmyndir þróaðar frá grunni til fullbúinnar vöru. Gull- og silfursmiðir sinna ýmis konar ráðgjöf og þjónustu við viðskiptavini ásamt sölu og markaðsmálum. Gull- og silfursmíði er löggilt iðngrein.

Gull- og silfursmiðir vinna einnig með aðra málma á borð við nýsilfur, eir, látún, platínu og títan. Málmurinn er unninn í mót með ýmsum aðferðum og skraut brennt í smíðisgripinn ef við á. Gengið er frá yfirborði hlutarins með því að slípa og pússa, hamra eða grafa í mynstur.

Helstu verkefni

- forvinna gull og silfur til mótunar
- gera við og hreinsa skartgripi svo sem hringa, armbönd og hálsmen
- grafa letur, skreyta og setja steina í málm
- húða málm með mismunandi aðferðum
- steypa skartgripi og gera mót fyrir gerð flóknari gripa

Hæfnikröfur

Sem gull- og silfursmiður þarftu að geta unnið sjálfstætt ásamt því að hafa mikla þekkingu á málmum og steinum sem tengjast skartgripum og gull- og silfursmíði. Gott er að þekkja hefðir í íslenskri skartgripagerð og geta smíðað einfalda slíka muni. Í gull- og silfursmíði eru notuð ýmis áhöld og tæki en tölvutækni er einnig nýtt við þróun, hönnun og framleiðslu.

Námið

Gull- og silfursmíði er kennd í Tækniskólanum. Meðalnámstími er fjögur ár.

Ekki fyrir þig?

Skoðaðu aðra valmöguleika