Skipstjórn er starfstengt nám á framhaldsskólastigi. Meginmarkmið námsins er að nemendur verði færir um að sigla flutninga-, farþega- og fiskiskipum. Í því felst að auka færni og þekkingu á siglingafræði, stjórnunaraðferðum, notkun  siglingatækja ásamt reglum og öryggi er tengjast skipum og siglingum. Hugsanlegt er að fá færni sem aflað er á vinnumarkaði metna á móti verklegum greinum (raunfærnimat).

Skipstjórn er löggilt starf. Meðalnámstími er fjögur ár til fullra skipstjórnarréttinda.

Kröfur

Umsækjendur þurfa að hafa lokið skyldunámi í samræmi við Aðalnámskrá grunnskóla, sjá nánar á heimasíðu skóla.

Námið hefur verið lánshæft til framfærsluláns og annarra lána hjá Menntasjóði námsmanna. Eins veita fag- og stéttarfélög oft styrki til náms. Fáðu frekari upplýsingar hjá þínu félagi.

Námsskipulag

Nám í skipstjórn skiptist í almennar bóklegar greinar og sérgreinar skipstjórnarinnar. Það er þrepaskipt og geta nemendur fengið réttindi að loknu hverju stig, frá A til D. Til að öðlast skipstjórnarréttindi þarf nemandi að hafa lokið réttindanámi, A, B, C eða D og 24 - 36 mánaða siglingatíma samkvæmt lögum um áhafnir íslenskra farþegaskipa og flutningaskipa og reglugerð um skipsstjórnar- og vélstjórnarréttindi á fiskiskipum, varðskipum og öðrum skipum.

Námið er hægt að taka að mestu í dreifnámi.

Kennsla

Nám að fullum skipstjórnarréttindum hefur verið kennt í Tækniskólanum- skóla atvinnulífsins  en stig A og B einnig við Menntaskólann á Ísafirði og skipstjórnarstig B í Framhaldsskólanum í Vestmannaeyjum.

Að loknu námi

Námið ásamt skilyrðum um siglingatíma, starfsþjálfun, vottorði um sjón og heyrn og öryggisfræðslu veitir skipstjórnarréttindi á fiskiskip, flutninga- og farþegaskip og önnur skip.

Ekki þinn tebolli?

Skoðaðu aðra valmöguleika