Djákni sinnir sálgæslu, félagslegri og kirkjulegri þjónustu á vegum kirkju, stofnana og félagasamtaka. Starfið er fjölbreytt og lýtur að sálgæslu, fræðslu, barna- og æskulýðsstarfi, fjölskyldustarfi, hópastarfi og starfi með öldruðum.
Í starfi sem djákni vinnurðu í samvinnu við kirkjusöfnuð eða við skóla, elli- og hjúkrunarheimili eða sjúkrahús. Djáknar vinna ýmist í samstarfi við presta eða á eigin vegum.

Helstu verkefni

- líknar- og fræðsluþjónusta
- fjölbreytt kirkjustarf með öllum aldurshópum
- styðja þau sem eru einmana, búa við heilsubrest eða félagslega einangrun
- sálgæslustörf

Hæfnikröfur

Í starfi djákna er mikilvægt að búa yfir mikilli fagþekkingu, hafa samkennd með fólki og eiga gott með mannleg samskipti. Þjónustulund og áhugi á kirkjustarfi eru  mikilvægir  þættir sem og að starfa eftir markmiðum Þjóðkirkjunnar. Í þjónustu sinni  klæðast djáknar gjarnan ákveðnum klæðnaði, grænni skyrtu, ölbu og stólu. Til að geta starfað sem djákni þarf að hafa hlotið vígslu sem biskup annast.
Djáknafélag Íslands

Námið

Djáknafræði er nám á meistarastigi og í boði við Háskóla Íslands.

Ekki fyrir þig?

Skoðaðu aðra valmöguleika