Leikskólaliðar starfa samkvæmt aðalnámsskrá við uppeldi, kennslu og umönnun leikskólabarna í samstarfi við aðra starfsmenn leikskólans.

Sem leikskólaliði stýrirðu verkefnum barna í leik og námi og skipuleggur og forgangsraðar undir leiðsögn deildar- eða leikskólastjóra.

Helstu verkefni

- aðstoða börn við daglegar athafnir og ýta undir sjálfstæði þeirra með hvatningu og hrósi
- taka þátt í móttöku og aðlögun barna og samskipti við foreldra/forráðamenn
- vinna sem hópstjóri undir leiðsögn deildarstjóra að listsköpun, hreyfingu, vettvangsferðum og markvissri málörvun
- veita börnum með sérþarfir stuðning í daglegu starfi undir leiðsögn sérkennara/deildarstjóra

Hæfnikröfur

Í starfi leikskólaliða þarf að þekkja til þroskaferils barna og félagsmótunar, geta metið þarfir og líðan barna og skráð athugasemdir í dag- og samskiptabækur. Í starfinu þarf að búa yfir góðri samskiptafærni og geta átt uppbyggileg samskipti við börn, samstarfsfólk og forráðamenn. Leikskólaliði á að geta beitt mismunandi aðferðum við að leiðbeina börnum eftir aldri og þroskastigi, búa yfir þekkingu og frumkvæði til að leiða hópastarf og vera fær um að vinna sjálfstætt og sýna frumkvæði.

Námið

Námsbraut fyrir leikskólaliða er tveggja til þriggja nám á framhaldsskólastigi, í boði við Borgarholtsskóla og Verkmenntaskóla Austurlands.

Einnig hefur verið boðið upp á svokallaða leikskólaliðabrú í samvinnu við símenntunarmiðstöðvar, ætlað þeim sem hafa starfsreynslu eða fyrra nám til að byggja á.

Raunfærnimat hefur farið fram og/eða kann að vera í boði.

Ekki fyrir þig?

Skoðaðu aðra valmöguleika