Prestar stýra helgihaldi og margs konar trúarlegum athöfnum, fræðslu og stuðningsþjónustu fyrir almenning. Í starfinu felst einnig að útskýra kennisetningar trúarinnar og tengja þær lífi fólks í samtímanum.
Í starfi sem prestur gætirðu haft umsjón með safnaðarstarfi í kirkju í samvinnu við aðra eða sinnt sérhæfðari þjónustu til dæmis sem sjúkrahúsprestur, fangaprestur eða prestur á vegum félagasamtaka.

Helstu verkefni

- undirbúa og flytja predikanir og messur
- framkvæma skírnir, hjónavígslur og fermingar og annast útfarir
- sjá um færslu kirkjubóka og skila skýrslum til hins opinbera
- heimsækja sjúka og aldraða og sinna þeim sem þurfa huggunar við
- vinna að sáttum manna í millum

Hæfnikröfur

Prestar þurfa að búa yfir samkennd, hjálpsemi og hæfileikum í mannlegum samskiptum. Heiðarleiki og samviskusemi eru nauðsynlegir kostir ásamt áhuga á kristilegum málefnum. Þá er hæfileiki til að miðla málum einnig mikilvægur eiginleiki og nokkur tungumála- og tölvukunnátta æskileg.
Kirkjan.is

Námið

Í guðfræði- og trúarbragðafræðideild Háskóla Íslands er hægt að læra guðfræði til BA – gráðu sem er þriggja ára nám. Nám til embættisprófs er tveggja ára nám til viðbótar en ýmis konar framhaldsnám er einnig í boði.

Ekki fyrir þig?

Skoðaðu aðra valmöguleika