Sölustjórar skipuleggja og stjórna sölustarfsemi í framleiðslu-, innflutnings-, dreifingar- og þjónustufyrirtækjum. Í starfinu felst að stjórna daglegri starfsemi ásamt því að skipuleggja og samræma störf sölumanna.

Í starfi sem sölustjóri gætirðu til dæmis unnið í heildsölu, innflutnings-, útflutnings- eða dreifingarfyrirtæki eða við auglýsinga- eða fasteignasölu.

Helstu verkefni

- gera söluáætlanir og annast útreikninga vegna tilboða og samninga
- skipuleggja söluferðir og vörukynningar
- fylgjast með eftirspurn og verðþróun á markaði
- markaðssetning nýrra vörutegunda
- samstarf varðandi framleiðslu, vöruþróun, innkaup og dreifingar vöru

Hæfnikröfur

Sölustjóri þarf að vera fær í mannlegum samskiptum og samningaviðræðum. Mikilvægt er að þekkja til rekstrar fyrirtækja og hafa getu til að stjórna sölu og viðskiptum. Einnig eru skipulagshæfileikar nauðsynlegir ásamt því að geta unnið í teymi og stýrt vinnu annarra. Kunnátta í ritvinnslu og töflureiknum er æskileg enda talsvert um skýrslu- og fjárhagsáætlanagerð. Í starfinu getur verið nokkuð um ferðalög og kvöld- og helgarvinnu.

Námið

Ekki er krafist ákveðinnar menntunar í starfi sölustjóra en ýmis konar nám á sviði viðskipta, verslunar og þjónustu getur nýst í starfinu.

Ekki fyrir þig?

Skoðaðu aðra valmöguleika