Starfsvettvangur verkfræðinga er afar fjölbreyttur enda sérsviðin mörg. Störf verkfræðinga eru einkum tengd hönnun, áætlanagerð, skipulagsmálum, stjórnun, eftirliti og rannsóknum. Í flestum tilvikum er tölvutækni og hugbúnaðargerð ríkjandi þáttur í starfinu. Verkfræðingur er lögverndað starfsheiti.

Megingreinar verkfræðinnar eru þrjár; umhverfis- og byggingaverkfræði, rafmagns- og tölvuverkfræði og véla- og iðnaðarverkfræði en undirgreinar fjölmargar svo sem efnaverkfræði, fjármálaverkfræði, hátækniverkfræði, heilbrigðisverkfræði, hugbúnaðarverkfræði og rekstrarverkfræði en í þessum greinum öllum er nám í boði við íslenska háskóla.

Verkfræðingar starfa mjög víða en sem dæmi má nefna verkfræðistofur, fjármála- og heilbrigðisstofnanir og framleiðslu-, hugbúnaðar-, ráðgjafar- eða iðnfyrirtæki.

Helstu verkefni

Rafmagns- og tölvuverkfræðingar vinna aðallega hönnunar- og skipulagsstörf, þróa og hanna ýmiskonar raftækni og rafeindabúnað fyrir iðnað, samgöngur, fjarskipti og raforkuvinnslu. Mikið er unnið með tölvutengdan hug- og vélbúnað.

Véla- og iðnaðarverkfræðingar starfa meðal annars við fyrirtækja- framleiðslu- og markaðsstjórnun, skipulagningu og ráðgjöf, hönnun, áætlanagerð ásamt eftirlits- og rannsóknarstörfum.

Umhverfis- og byggingaverkfræðingar vinna meðal annars við hönnun, skipulagsmál og stjórna framkvæmdum á sviði samgöngumála og byggingaframkvæmda, vinna við virkjun fallvatna, umhverfismat, og við eftirlit og viðhald mannvirkja.

Hæfnikröfur

Verkfræðingar þurfa að ljúka meistaranámi í verkfræði frá háskóla í samræmi við lög um löggildingu nokkurra starfsheita sérfræðinga í tækni og hönnunargreinum. Mikilvægt er að búa yfir góðri almennri þekkingu á grundvallaratriðum verkfræðinnar, hafa áhuga á tækninýjungum og eiga gott með að vinna hvort tveggja sjálfstætt og í teymi með öðrum.

Verkfræðingafélag Íslands

Námið

Hin ýmsu svið verkfræði eru kennd við Verkfræði- og náttúruvísindasvið Háskóla Íslands og Verkfræðideild Háskólans í Reykjavík.

Ekki fyrir þig?

Skoðaðu aðra valmöguleika