Tónlistarnám á framhaldsskólastigi er oft tengt bóknámsbrautum til stúdentsprófs þar sem tónlist er ýmist aðalnámsgrein eða kjörsviðsfög. Sérsvið í boði eru hljóðfæraleikur, söngur, tónsmíðar eða fræðigreinar tónlistar og miðast kjarni námsins við það sem þarf til að útskrifast með fullgilt framhaldspróf samkvæmt aðalnámskrá tónlistarskóla.
Kröfur
Almennt þarf að hafa lokið skyldunámi í samræmi við Aðalnámskrá grunnskóla. Ýmis sérviðmið geta hins vegar átt við inn á mismunandi brautir, svo sem miðpróf í tónlist, grunnpróf í söng, tónlistarreynsla eða jafnvel inntökupróf. Best er að kanna þau mál á heimasíðum viðkomandi brauta.
Fræðslusjóðir stéttarfélaga veita oft styrki til náms. Fáðu frekari upplýsingar hjá þínu félagi.
Námsskipulag
Nám í tónlist á framhaldsskólastigi er almennt ætlað að veita góðan undirbúning fyrir háskólanám í tónlist og störf tónlistarfólks. Gjarnan er hægt að velja á milli sérhæfingar í klassískri eða rytmískri tónlist auk ýmis konar valnámskeiða. Alla jafna fer sjálf tónlistarkennslan fram í tónlistarskóla en almennar bóknámsgreinar í viðkomandi framhaldsskóla.
Kennsla
Tónlistarnám getur verið í boði í tengslum við nám í framhaldsskólum og/eða í samstarfi þeirra og tónlistarskóla. Tónlistarskólinn á Akureyri er í samstarfi við nokkra framhaldsskóla á svæðinu um kjörnámsbrautir í tónlist og Menntaskóli í tónlist býður tónlistarnám á tveimur brautum til stúdentsprófs, klassískri og rytmískri.
Að loknu námi
Nám í tónlist á framhaldsskólastigi getur verið góður undirbúningur fyrir frekara tónlistarnám en einnig valkostur fyrir fólk sem stefnir að því að hafa tónlist að atvinnu.
Tengt nám