Leikmyndahönnuðir teikna leikmyndir í mismunandi hlutföllum og gera módel af sviði sem leikmunir eru mátaðir inn í. Í starfinu er unnið með ýmis efni, liti og áferð sem þörf er á til þess að fá fram mismunandi hönnun.
Leikmyndahönnuðir geta unnið í stórum sem smáum leikhúsum, í sjónvarpi eða við kvikmyndagerð, oft í samstarfi við leikstjóra og búningahönnuði vegna heildarútlits sýninga.
Helstu verkefni
- lestur handrits og heimildavinna til undirbúnings
- hanna leikmynd og ákveða útlit hennar í samvinnu við leikstjóra
- búa til grunnhugmynd og vinna skissur
- teikna upp leikmynd á pappír eða í tölvuforriti ásamt því að gera módel úr pappír, tré eða öðru efni
- ákveða efnisnotkun, liti og áferð leikmyndar og umhverfis
- koma hugmyndum áfram til leikmyndasmiða með vinnuteikningum
Hæfnikröfur
Leikmyndahönnuðir þurfa að geta gert vinnuteikningar og unnið með kvarða, hlutföll og rými. Nauðsynlegt er að þekkja hvernig á að vinna með tiltekin efni, liti og ná fram ákveðinni áferð. Gott hugmyndaflug, áhugi á hönnun, skipulagshæfileikar og hæfni til að starfa með öðrum eru allt mjög gagnlegir eiginleikar í starfi leikmyndahönnuðar.
Bandalag íslenskra listamanna
Námið
Sérnám í leikmyndahönnun er ekki kennt á Íslandi en ýmis konar starfstengd námskeið kunna að standa til boða.
Leikmyndahönnuðir eru oft myndlistarmenntaðir en nám í myndlist er til dæmis í boði á listnámsbraut Fjölbrautaskólans í Breiðholti, Myndlistaskólann í Reykjavík, Myndlistaskólann á Akureyri og myndlistardeild Listaháskóla Íslands.
Tengd störf